SPIL

DNG framleiðir ýmsan búnað til línuveiða og leggur sig fram um að bjóða upp á heildarlausnir. Fyrirtækið hefur lengi þjónað minni bátum og millistjórum en á nú erindi við stærri línuskip. Fjölbreytileg vörulína gerir DNG kleift að sérsníða lausnir fyrir hvert og eitt skip.

SPIL

SV-09

SV-09 línuspilið er það minnsta í röð þeirra spila sem DNG framleiðir. Spilið er ætlað allra minnstu bátunum og er frábrugðið stærri spilum á þann hátt að við það er engin borðstokksrúlla eða afslítari. Einungis er um að ræða línuskífu sem er eins og á SV-10B, næstu stærð fyrir ofan ásamt burstasetti. Fiskimaðurinn þarf sjálfur að slíta fiskinn af með handafli. Þetta spil er einungis hugsað fyrir tómstundaveiðar eða aðrar aðstæður þar sem mjög létt og fyrirferðalítið spil þarf.

SPIL

SV-10B, SV-11A og SV-12A

SV-10, 11 og 12 spilin eru öll svipuð að uppbyggingu, með sambyggðu spili og afslítara. Línan er dregin yfir borðstokksrúlluna áfram í gegnum slítarakeflin þar sem fiskurinn slitnar sjálfkrafa af línunni. Línan fer áfram í gegnum bursta þar sem gömul beita er hreinsuð af krókunum. Línan heldur síðan áfram að leiðarhjóli sem leiðir hana í línuskífuna. Línan losnar sjálfkrafa út úr skífunni með hjálp þvargara sem komið er fyrir neðst í skífunni en þaðan hringast línan annaðhvort niður í bala eða fer áfram til uppstokkara.

SPIL

Færaspilin SV-13 og SV-13B

Færaspilin eru notuð til að draga millifærin svo að hægt sé að nota línuspilið til að draga línuna á meðan. SV-13 er ætlað fyrir minni báta, það er framleitt úr seltuþolnu áli og er með 35 cm línuskífu og 200 cc mótor. SV-13B er nánast eins í útliti og SV-13 en er með 44cm línuskífu og 300 cc mótor. SV-13B er búið til úr ryðfríu stáli og er sterkbyggðara og sérstaklega ætlað fyrir stærri línuskip.

SV-16

SV-16 línuspilið er sérstaklega hannað til notkunar í stórum línuskipum þar sem mikilla átaka er krafist. Línan er dregin í gegnum afslítara og burstakerfi sem standa ein og sér fyrir framan spilið. Þaðan fer línan inn á línuskífurnar og er dregin út úr þeim með hjálp afdragara sem festur er við spilið. Þaðan fer línan áfram inn í leiðirör sem leiðir línun til uppstokkarans. Hægt er að velja stærð mótorsins allt eftir því hvaða afli menn vilja ná út úr spilinu. Einnig er hægt að velja um rafmótor. Ofan á línuskífunum er koppur sem hægt er að nota ef nauðsyn er á miklu afli. Efri hluti spilsins er úr ryðfríu stáli en fótur þess er úr galvaniseruðu stáli. Spilið er sérstaklega útbúið til tengingar við Line-Tec stjórnbúnaðinn.

 

SPIL

SV-16EL rafdrifið línuspil

SV-16EL er rafdrifið línuspil fyrir stærri línubáta. Þetta spil er byggt á SV-16 en er drifið af rafmótor í stað vökvamótors.
Hraða og átaki rafmótorsins er stýrt með LineTec kerfinu með hjálp tíðnibreytis. Einnig fylgir handstýring til notkunar við lúguna.

Helstu kostir rafmagnsspilsins:

  • Minni orkuþörf - aðeins 15kW.
  • Nákvæm stýring á hraða og átaki.
  • Nákvæm stýring á hraða og átaki.
  • Engin dælustöð.
  • Hljóðlátara en vökvadrifið spil.
  • Mengunarlaust - ekkert glussasmit.

Tæknilegar upplýsingar
SPIL

SV-15 Afslítarinn

Afslítarinn (goggarinn) er alltaf staðsettur út við borðstokk stjórnborðsmegin. Hann er hafður á lið þannig að auðvelt er að taka hann inn þegar þarf að loka lúgunni. Einnig hefur afslítarinn verið smíðaður inn í lúgu og fylgir afslítarinn þá lúgunni þegar hún færist inn og út. Lárétta keflið á afslítaranum situr í tveimur öflugum legum og þolir því mikil átök. Fiskurinn slitnar sjálfkrafa af við slítarakeflin og rennur eftir rennu inn í bátinn. Eftir að línan hefur farið í gegnum slítarakeflin stýrist hún inn á burstakerfið og til línuspilsin á stýrihjóli sem staðsett er aftast á afslítaranum. Afslítarinn er smíðaður úr ryðfríu stáli.

SV-80 Lúgustjórnunin

Í slæmum veðrum þurfa skipstjórnarmenn sífellt að vera á varðbergi gagnvart brotsjóum. Á línuskipi við drátt er lúgan opin og því vinnandi menn á dekki í ákveðinni hættu þegar sjór kemur á lúguna. Í verstu tilvikum getur öryggi skipsins sjálfs verið ógnað. DNG hefur þróað stjórnun á dráttarlúgu sem skipstjórnarmaður getur notað til að loka lúgunni á innan við 15 sekúndum og varið skipið og áhöfn fyrir sjóum. Fyrirtækið getur einnig smíðað lúguna sjálfa. Þá er lúgan tvískip, annars vegar fremri helmingur sem afslítarinn er festur við og opnast fram og út þannig að lúgan er varin skvettum framan frá og hins vegar aftari helmingur sem er eins og rennnihurð og gengur beint aftur. Þegar skipstjóri lokar lúgunni gellur viðvörunarbjalla og ljós blikkar. Sjálfvirk lokandi lúga með fjarstýringu úr brú hefur verið lögleidd á sumum hafsvæðum.